Antikbúðin

Nýlendufólk í úthverfaparadísinni Mosfellsbæ, Gógó (Sigurlaug Guðrún) og Jónas virðast hæstánægð með tilveruna á stað sem er eins ólíkur þeim og þau eru honum. Bæði eru þau ,,Hlíðaendar”, þ.e.a.s. uppalin í Hlíðunum og sjá sig þar á ný þegar fer að róast hjá þeim. En eins og tíðin er, þá eru þau staðsett við rætur Úlfarsfellsins með Faxaflóann, Esjuna og miðbæinn út um stofugluggann. Þau virðast ekki vita hvað kolefna fótspor er, enda reka þau verslun sína í miðbæ Hafnarfjarðar og eiga því mögulega einn lengsta rúnt í vinnu innanbæjar sem völ er á. En nú sitjum við á spjalli yfir kaffi og fylltum lakkrísreimum.

Interview only available in Icelandic for now.

Hversu lengi hafið þið verið í antík og listmunabransanum?

Í tæplega tuttugu ár. Við byrjuðum á Hverfisgötunni, svo vorum við staðsett í Austurstræti og síðan í Aðalstrætinu. Einnig höfum við verið á tveimur stöðum efst á Laugaveginum en núna síðast erum við á Strandgötunni í okkar öðru húsnæði hér í Hafnarfirðinum. Það er í raun engin eftirsjá frá miðbæ Reykjavíkur, hér er fullt af mannlífi.

,,Við megum í raun ekki koma nálægt gömlum húsum og þá eru þau rifin”

Hvernig kom það til að þið byrjuðuð í antíkbröltinu?

Áhugi og tilviljun. Við komumst í hentugt húsnæði við hliðina á sjoppu sem við rákum segir Jónas. En svo var það var í raun auglýsing um stórt dánarbú sem ýtti okkur af krafti út í þetta. Þau voru mjög oft auglýst þá, einstaklings- og opinber bú og þannig vorum við fljótt komin með tiltölulega stóran lager. Svo keyptum við inn vörur frá Bretlandi og þá var þetta eiginlega orðið svo stórt að ekki varð aftur snúið. Gógó segir að hún og Halldór (pabbi Jónasar) hafi í upphafi sett upp þá verslun.

Þið höfðuð starfað saman áður?

Jú, við höfum í raun starfað saman alla okkar hunds- og kattartíð,
næstum því í þrjátíu ár.

Hvar hófst ykkar samstarf?

Eftir mikla umræðu sín á milli komast þau að sameiginlegri niðurstöðu, þau byrjuðu í Kjörgarði, að hanna og selja skartgripi pönk eyrnalokka og annað þess slags glingur. Við höfðum erft lager af allskonar skartgripum og skartgripahlutum og fórum út í að móta dótið til í allskonar lokka, hattaprjóna og meira í þá áttina. Næst tók við búð sem við nefndum Hitt og Þetta og síðan eru liðin 30 ár og við höfum unnið saman nær samfellt í þann tíma.

Heyrt hef ég að þið séuð bölvun fyrir gömul hús, er einhver sannleiki í þessari fullyrðingu?

Við megum í raun ekki koma nálægt gömlum húsum, því þá eru þau rifin. Við vorum síðustu kaupmenn í þremur af merkustu húsum Reykjavíkur áður en þau voru rifin. Austurstræti 8, þar sem nú er Thorvaldsenbar en það var þekkt sem gamla Moggahúsið (Flóran). Aðalstræti, í því húsi sem nú er Hótel Reykjavík Centrum vorum við líka síðust út. Sama á við um Lækjargötu 4. Þar sem Jómfrúin er, húsið er frægt fyrir að hrynja nánast í beinni (lengi vel notað sem myndefni í byrjun fréttatíma stöðvar 2). Þau hafa öll verið endurbyggð þannig að samviska okkar er hrein.

Fólk er með mjög staðbundnar hugmyndir um hvað antík og antík-búðir eru, en mér sýnist þetta vera að breytast, ekki satt?

Í fyrsta lagi: Á síðustu tíu árum hefur afstaða til antík á alheimsvísu gjörbreyst, ef þú berð saman það sem var ekki litið við áður er nú skoðað af kostgæfni með ,,antik of the future” í huga ekki aðeins hvað er ,,vogue” núna heldur hvað mun vera inn og vera verðmætt á morgun.

Í öðru lagi: Antíkverslun með vörur sem varða ákveðið tímaskeið getur ekki gengið á Íslandi, markaðurinn er bara of þröngur. Erlendis eru nú orðið næstum jafn margar ,,antik of the future” búðir (forngripir framtíðarinnar) og venjulegar antíkbúðir. En það er ekki eitthvað sem er gerlegt hérna, ekki til langtíma allavega.

En hvað þá með ykkar persónulega stíl?

Í rauninni er hann orðinn mjög blandaður í seinni tíð, segir Gógó, á skenknum heima hef ég t.d. nýja hönnun frá Ingu Elínu við hliðin á á silfri frá 1860. Samantekið eru þetta í raun blandaðir hlutir, í tíma og rúmi, þetta er blandað persónulegu fegurðarskyni.

Mynduð þið þá segja að það væri vegna þess að þið hafið alltaf þann möguleika að skipta út vöru?

Já, það er stór hluti af því. Við erum ekki of tengd hlutunum hvað það varðar, ef við fáum æði fyrir einhverju nýju sem kemur inn þá er auðvelt að skipta öðru út. Auðvitað eru samt alltaf sumir hlutir sem fá að halda sínu, hlutir sem hafa tilfinningalegt gildi.

,,Ég vil leyfa hlutunum að njóta sín, hvort sem þeir eru gamlir eða nýir.”

Hefur stíllin ykkar þróast?

Já! Hann er sífellt að þróast, módernisminn (nútímalegt viðhorf) þar sem bakheilinn þarf að vinna er alltaf að verða meira örvandi með tímanum hjá okkur, landslagsmyndirnar sem voru uppi á öllum veggjum eru eiginlega allar horfnar. Gógó segir að það megi þó ekki láta það fréttast að hún sé með ,,less is more” hugmyndafræði í antík (fyrir sig allavega). Ég vil leyfa hlutunum að njóta sín, hvort sem þeir eru gamlir eða nýir.

,,antik-sali fer að elska alla fegurð ekki aðeins í formum, heldur einnig í náttúrunni..”

Hvar byrjar og endar listaverkaáhugi ykkar?

Hann byrjar bara með sjónhrifum sem virka á okkur, en við látum ekki myndlist á okkur fá eftir listamannanöfnum. Upp á vegg erum við með myndir sem hafa komið inn til okkar eða við fundið hér og þar og þær eru algerlega lausar við þær byrðir að bera þekkt nöfn. Á sama tíma erum við með Kjarval í geymslu vegna þess að hún höfðar ekki til okkar eins og stendur. Fegurðarskynið fær að ráða, ekki verðmiði.

Móðins nýhönnun í dag að ykkar mati?

Svo nokkur nöfn séu nefnd, þá var Jón Gunnar Árnason mjög fær sem gerði sólfarið við Skúlagötu, segir Jónas. Eins Eiríkur Smith og Karl Kvaran, skjóta þau inn nær samtímis. Bragi Ásgeirsson er nú líka ákveðið uppáhald.

Nú er ný afstaðinn grenndardagur Þjóðminjasafnsins, af hverju voruð þið eða aðrir fulltrúar stéttarinnar ekki þar?

Okkur þætti mjög gott að vera boðið en okkar fag virðist virt að vettugi vegna þess að það er ekki til neitt réttindaskírteini í því. Við eru meira eins og ,,alminjaverðir” en við viðurkennum að sumt þurfum við að senda frá okkur því það er komið út fyrir okkar aldurssvið, það er líka sumt sem við neitum að selja úr landi, sökum aldurs og minjavirðis.

Að lokum vil ég vita hvernig áhugamál þið hafið, svona fyrir utan það ofangreinda?

Fara í sund og ekki, bara beint í gufuna. Ég myndi segja að antík-sali fer að elska alla fegurð, ekki aðeins í formum, heldur einnig í náttúrunni og því förum við mikið í göngu- og hjólatúra. Okkar drifkraftur er í öllu þessu, allt er þetta samtengt.

Viðtal: Guðni Rúnar
Myndir: Nanna Dís