Hringa

Arkandi upp Laugaveginn með rjúkandi kaffi í hönd, stefndum við til móts við Hringu, sem er snotur skartgripaverslun með mikinn karakter og stóran stíl. Við erum snemma á ferð til að ná Ingu Rúnarsdóttur Bachman áður en lætin byrja. Fyrir utan verslunina mætum við henni þar sem hún er að þrífa í burtu glæsileika síðustu nætur sem er eitthvað sem allir kaupmenn á þessu svæði þekkja af eigin raun og er ekki beint heillandi. En þessari föstu vinnu lýkur hún fljótt og býður okkur inn þar sem við hefjum upp erindið, sem er að spyrja hana spjörunum úr.

Interview only available in Icelandic for now.

Hvað ertu búin að vera lengi í þessum geira?

Haustið 2002 byrjaði ég í þriggja ára háskólanámi og kom heim úr því 2005.

Hafðirðu þá stundað gullsmíðanám í Iðnskólanum áður en þú fórst út?

Ég hafði verið upp í Iðnskóla en ekki í gullsmíði. Ég sem sagt fór út til Barcelona og kem aftur árið 2005 og fæ þá vinnu hjá gullsmiði og er hjá honum í um þrjú ár og byrja svo með mína eigin verslun á Klapparstígnum, svona næstum því sama dag og hrunið varð eða 1. nóvember 2008. Flyt síðan hingað á Laugaveginn sex mánuðum seinna því þá bauðst mér þetta rými, á betra verði og meira í alfaraleið. Ég er ánægð að hafa gripið tækifærið.

Þú hefur þá verið í hönnun í Iðnskólanum í Reykjavík. Hvað kemur til að þú ferð svo út í það sem þú ert að gera í dag, hvaðan kemur andagiftin og er það eitthvað eitt sem fleytir þér áfram?

Það er bara umhverfið, sama hvort það sé borgin eða náttúran. Það er fólkið og umhverfið, sem ég lifi í. Eins og þú sérð á skartgripum sem ég er með þá er ég með fjöru-þema og borgar-þema, bíla og blöðrur svo eitthvað sé nefnt.

“Ég er með þá reglu, að ég reyni að gera nýjar línur, nýja hluti á hverjum ársfjórðungi”

Mig langaði að spyrja aðeins út í þessar sterku andstæður í því sem þú gerir, annars vegar þessi náttúrulegu form og svo ,,dauða hluti” hins vegar.

Já einmitt eins og kastala-línan sem er innblásin af Barcelona, þetta eru allskonar andstæður og einnig nota ég leikföng og vinn út frá þeim.

Myndir þú segja að þú takir form og hugmyndir úr samhengi og vinnir þig þannig áfram?

Já klárlega, bara eins og skrúfurnar, skrúfur úr silfri eru náttúrulega alveg úr samhengi.

“ég skissa niður hugmyndir miklu hraðar en ég næ að vinna úr þeim”

Er ferðamannamarkaðurinn stór hluti af þínum viðskiptum?

Ég myndi segja að hann væri svona 40% eða nálægt því. Ég er með rosalega góðan íslenskan viðskiptamannahóp og þegar fólk kemur einu sinni, þá kemur það alltaf aftur. Oft er þetta fólk sem hefur ekki gengið mikið með skartgripi en það kemur hingað og sér það sem ég er með og þá vaknar kannski löngun til að fá sér skartgripi. Ég hef heyrt þetta mikið frá viðskiptavinum og það er mjög gaman.

Það er ákveðinn gáskafullur tónn í því sem þú gerir, já og smá húmor. Það er kannski það sem þarf til að vekja áhuga fólks?

Skartgripir hafa alltaf verið rosalega alvarlegir, þetta eru eðalmálmar og eðalsteinar. Fólk hefur líka oft verið feimið við þetta, en ég er að mestu með silfur sem er ekki alveg eins alvarlegt og svo er ég með allt opið þannig að fólk getur farið í skápana og handfjatlað gripina. Er þá engin þjófahræðsla hjá þér? Nei enda er það örsjaldan sem maður verður eitthvað var við þannig fólk.

En hvernig er það þá að vera með vinnustofu á staðnum, það er væntanlega bæði kostur og galli?

Það hefur gengið alveg ótrúlega vel, því ég náttúrulega smíða allt hérna inni sjálf. Þessi geiri er rosalega árstíðabundinn, þannig að það koma lægðir inn á milli þar sem ég næ að byggja lagerinn upp aftur. En oft, eins og á sumrin getur þetta verið kapphlaup við klukkuna, en þá vinnur maður bara fram eftir kvöldi.

Þú segir að þú vinnir fram eftir á sumrin, til þess eins að anna eftirspurn, nærðu þá að setja þér línur?

Ég er með þá reglu að ég reyni að gera nýjar línur, nýja hluti á hverjum ársfjórðungi. Það er rosalega mikilvægt að fólk sem kemur hingað aftur og aftur fái að sjá eitthvað nýtt. Hvernig ferðu þá að þessu? Ertu alltaf með skissubókina á þér? Já ég er með mjög margar hugmyndir sem ég skissa bara niður, ég skissa niður hugmyndir miklu hraðar en ég næ að vinna úr þeim í málm. Það er ekkert vandamál, ég er alltaf með hugmyndir, ég þarf bara að setjast niður og útfæra þær.

Þá ertu væntanlega með vinnureglur og vinnuaðferðir sem þú hefur tekið upp þegar þú varst að læra í Barcelona?

Já, skólinn minn var rosalega góður hvað það varðar, af því að námið heitir listræn gullsmíði og hönnun og var mjög stór hluti af náminu, og oft á tíðum lærði maður tæknina út frá hönnuninni. Meira trial and error? Þetta var ekki alveg eins og þetta er hérna heima þó svo að þetta sé að breytast, þar sem þú þarft að fara í gegnum allar tegundir af lásum, hjörum o.s.frv. En þarna úti lærði ég þetta bara meðfram hönnuninni, sem fékk sinn forgang.

Gerðir þú þá eitthvað sem mætti kalla sveinsstykki?

Lokaverkefnið er þannig að þú vinnur ritgerð og skartgripi. Þannig að þú vinnur ritgerðina út frá verkefninu, það er skýringarhlutinn á stykkjunum þínum. Það er þannig að þú velur þér þemu og vinnur út frá því og ég gerði tólf sveinsstykki, ef svo má segja, tólf lokastykki. Nokkurs konar línu? Hver og einn hlutur var ólíkur, en þemað var manngerð náttúra, það er erfitt að þýða þetta, í raun er það samband manns við náttúru og hvernig við túlkum náttúruna. Ég tók þara og gerði mannlegan hlut sem tók mið af þaranum, steingervingum, steinum og mosa, allskonar hluti sem ég svo paraði saman, þannig að þú varst með par. Sem sagt náttúrulegan hlut og svo manngerðan hlut.

Þar sem þú lærðir erlendis hlýtur skapandi tenging þín að vera við útlenskar hefðir. Hefur þú verið að sækja í íslenskar skartgripahefðir eftir heimkomuna?

Nei, ég hef ekki verið að sækja í íslenskar skartgripahefðir en það sem ég hef gert er að sækja mikið í íslenska náttúru til að útfæra mína skartgripi. En eins og þú sérð, þá er mikið íslenskt hérna. En hlutir eins og múrsteina-þemað og kastalarnir og laufblöðin sem ég er með, þetta eru allt saman hugmyndir sem ég fékk erlendis. Þetta er ennþá svona 70% Barcelona, 30% Ísland en allt er í stöðugri þróun.

Ég vil aðeins spyrja þig út í verslunina og þá aðallega hönnunina á henni. Innréttingin er sérlega vel heppnuð, opin og björt, hvernig kom hún til?

Fyrsti hluturinn sem ég fékk hérna inn er skenkur úr tekkviði frá frænku minni og öll eiga húsgögnin það sameiginlegt að vera endurnýtt, þetta eru gamlir skenkar, skápur og afgreiðsluborð. Seinna þegar ég var búin að vera með búðina í um það bil eitt ár, fór ég að hugsa um þetta því ég vil vinna úr endurunnu silfri og steinum frá námum án milliliða, ég vil vera sanngjörn í þessu öllu. Því fór ég að finna mér sambönd og silfursteypara sem vinna út frá þessari hugsun minni. Í búðinni um þessar mundir myndi ég segja að það væri um 80% silfursins endurunnið, það er ekkert námusilfur hérna inni. Steyparinn minn er áttatíu ára gamalt fyrirtæki í Bandaríkjunum sem hefur stundað það að kaupa eðalmálma og endurvinna þá. Þetta er þá tanngull og úr hinum ýmsu tæknigeirum. Það er rosalega mikið sem fyrirfinnst í tölvum svo dæmi sé tekið. Svo eru náttúrulega afföll hjá gullsmiðum, það eru alltaf afföll eins og sést hér í skúffunni hjá mér, allt þetta sag. Þetta sel ég bara aftur til þeirra. Er það ekki mjög flókið ferli að bræða niður og hreinsa upp aftur? Jú, þegar þeir kaupa silfrið þá hreinsa þeir það alveg, það þarf að fara í efnagreiningu og umbreyta því aftur í hreint silfur og svo sterling silfur, 14 karata eða 18 karata.

Er ekki mikill meirihluti gullsmiða á Íslandi sem hafa lært hérna heima?

Jú og einnig í Danmörku, og svo hafa nokkrir farið til Birmingham veit ég en þar er rosalega góður skóli.
Þetta er blómlegt listasvið? Þetta er alltaf að breytast, það er komið mikið af nýju fólk og auðveldara er að komast í skólann. Það eru bara almennt mjög jákvæðir hlutir að gerast.

Kunna Íslendingar að meta skartgripi, verðmæti skartgripa og listræna vinnu?

Íslendingar kaupa skartgripi eins og Bandaríkjamenn, þeir kaupa það sem þeim finnst flott. Þjóðverjar kaupa eðalsteina og gull og líta á það sem góða fjárfestingu. Þessi hugsun bjargaði mörgum í seinni heimsstyrjöldinni, að eiga til dæmis demantshring og geta selt hann. Það er ótrúlegt hversu gerólíkar þjóðir geta verið. Þjóðverjar kaupa skartgripi eins og bankamenn keyptu málverk hérna heima, sem veggfóður og fjárfestingu.

Þér finnst mikilvægt að hafa heildræna áferð á búðinni, samhengi milli innréttinga og hugmyndafræði vörunnar?

Það fyndna er að þetta hefur alltaf blundað í mér. Endurvinnsla og að passa uppá að það sem ég kem nálægt sé umhverfisvænt. Þetta blundaði í mér, ég er bara svona manngerð. Ég valdi þessar innréttingar og gerði þetta svona og fór óvart út í að gera silfrið eftir sömu hugmyndafræði sem var í raun bara sjálfsagt framhald.

Ég verð að spyrja aðeins um útstillingarnar hjá þér, leggurðu mikla vinnu í þær?

Stundum getur þetta verið alger höfuðverkur en yfirleitt þá sé ég bara eitthvað, eins og þessa lampaskerma (sjá mynd) sem ég fann í Góða Hirðinum og hugsaði ,,já vá, gríp þá með mér”. Ég reyni alltaf að gera eitthvað sem fólk tekur eftir vegna þess að þetta er svo lítil búð og húsið svo stórt og útveggurinn er allur eins þannig að stundum tekur fólk bara tekur ekki eftir búðinni, svo ég verð að vera með eittvað sem grípur augað til að fólk stoppi við gluggann og kíki inn.

Er það ekki lúxus að vera sinn eiginn herra?

Jú, það er ótrúlega þægilegt, þegar ég kem í vinnuna þá er allt svo rólegt og ég get haft allt eftir eigin höfði. Mér finnst náttúrulega mjög gaman að smíða og dagarnir líða afar hratt hjá mér. Að vinna í búð getur verið leiðinlegt þegar það er rólegt og fólk endar bara með að hanga, en það gerist aldrei hérna vegna þess að ég get alltaf verið að smíða og ég er alltaf að smíða, ef ekki þá er ég að hanna nýja línu. Þannig að þú ert að ná nærri því 100% framleiðni? Já, næstum því.

Er einhver útrás í þér?

Mig hefur alltaf langað til að gera það og er alveg tilbúin að gera það úr þessu. Árið 2011 væri ég til í að fara á einhverja sýningu í útlöndum og bara sjá hvernig viðbrögðin eru og ákveða mig síðan í framhaldi af því. Ég veit að erlendir ferðamenn eru hrifnir af þessari vöru og þeir hringja oft í mig og segja, ég sá þetta í búðinni eða ég keypti þetta og sá annan hlut sem mig langar í, geturðu sent mér hann?

Er þá skartgripa ,,sena” þarna úti í Evrópu? Já já, ég þekki einna helst umhverfið við Miðjarðarhafið og svo er Þýskaland, sem er svolítið eins og Mekka eða fyrirheitna landið okkar sem vinnum við skartgripagerð.

Út frá þessu byrjum við að tala um hina og þessa skartgripi sem við sjálf eigum, svo byrja kúnnarnir að skjótast inn, þannig að við þökkum fyrir okkur og höldum út í daginn með glit í hjarta.

hringa.is

Viðtal: Guðni Rúnar
Myndir: Nanna Dís