Ranka & Lukas

Þegar ég sest niður með viðtalsefninu þá er stelpan hennar hún Embla Gabríela nýfarin út í vagn, eins og venja er víst á þessu heimili en það er þó engin ávísun á rólega stund. Við hefjum viðtalið í húsi sem gefur frá sér sín eigin hljóð þegar gengið er um það líkt og það andi og með talandanum í okkur, hljóðunum í húsinu, fuglum og raftækjum er um að ræða hljóðmyndun sem er eitthvað í áttina að því þegar stórsveit stillir strengi rétt fyrir tónleika…

Interview only available in Icelandic for now.


,,..ég er með Ranka Maximus á facebook. Glæsilegt. Ó shit nú finna mig allir.”

Segðu okkur endilega hvað frúin heitir, og viðurnefni ef svo á við.

Þarf ég endilega að segja hvað ég heiti? Jú ok, Ragnhildur Jónasdóttir, ég er skírð það.
En náttúrulega heiti ég það ekki neitt, ég heiti Ranka og er kölluð Ranka. Stundum kölluð Ranka Maximus
eða Ranki Pops, eða Rankilicious eða Rank’s eða Rankus og svona einstaka sinnum Elskan mín,
þegar fólk er í góðu skapi en annars geng ég undir nafninu Ranka. Ertu með það skráð í símaskrá eða þjóðskrá? Ehhm… nei en ég er með það skráð í lífinu. Já og á Fésbókinni, er það ekki? Jú, sem skiptir öllu. Það náttúrulega skiptir öllu að ég sé með Ranka Maximus á facebook. Glæsilegt. Ó shit nú finna mig allir.

Ertu lífskúnstner?

Já, bara já. Hvernig lýsir það sér að vera lífskúnstner? Já fyrir það fyrsta, þá mála ég bara málverk að lífskúnst. En hvernig er Ranka lífskúnstner? Það er að sofa út og fá sér kaffi og sígó á morgnana og hafa gaman af lífinu, svo maður noti klisjur. Og bara ekkert stress, ég held það sé voðalega mikið það að vera lífskúnstner að vera ekki stressaður, er það ekki bara nokkuð gott? Þú veist ég myndi nú ekki kalla að vera lífskúnstner að drekka sig fulla á hverjum degi. Maður kláraði það náttúrulega, fyrir svolitlu síðan.


,,..eggjabrauð í forrétt, hakk og spagettí í aðalrétt og popp í eftirrétt”

Með allt þetta að leiðarljósi, hvernig læturðu það virka, að vinna, reka heimili og hafa tíma fyrir list sem og aðra þá hluti sem þú tekur þér fyrir hendur?

Já, það er nú ákveðin kúnst getum við sagt að gera það. Ég gerði þessa frábæru ráðstöfun að henda dótturinni á leikskóla, en það var mjög sniðugt því þá hef ég tíma fyrir heimili, list og rest (smá kaldhæðnistónn í Rönku eins og ég ætti bara að vita um þessa leikskóla og til hvers þeir eru).

Seinni hluta dagsins eyði ég voða mikið með Emblu en hún er svoddan snillingur að ég þarf ekki að hafa mikið fyrir henni þannig, hún bara lífskúnstnerar með mér. Hún samverkar til góðs.

Nú hef ég heyrt að þú sért alger gyðja í eldhúsinu, ofaná allt hitt. Hvað eldar þú helst?

Ef þú kæmir til mín í mat í hverri viku þá myndir þú alltaf fá eggjabrauð í forrétt, hakk og spagettí í aðalrétt og popp í eftirrétt. Sem er þó poppað í potti sem er svolítið merkilegt, því það er deyjandi list. Þetta eru þessir þrír réttir sem ég kann að elda. Hann Lúkas sér mest um að elda.


,,..vorum með svokallað ,,Free donation” kaffihús á Stöðvarfirði í sumar.”

Hvernig er með þessi Eastern Promises, þið eruð víst með annan fótinn á Stöðvarfirði?

Við vorum með svokallað ,,Free donation“ kaffihús á Stöðvarfirði í sumar. Við vorum í galleríinu hjá honum Rikka, Gallerí Snærós. Þar vorum við að gefa kaffið, svona innan gæsalappa. Hvernig gekk það? Það gekk rosalega vel, það voru allir tilbúnir að fá gefins kaffi og svo gat fólk bara styrkt okkur ef það vildi, vegna þess að planið er að opna menningarmiðstöð og kaffihús á Stöðvarfirði ásamt fleira fólki.

Er það langtíma verkefni sem þið eruð að vinna að?

Já, við ásamt Rósu og Stenek, Kjartan og Tobbu, við eru þrjú pör, allt barnafólk í þessu. Lífið stoppar ekkert þó þú sért komin með krakka. Rósa og Stenek eru mikið búin að vera að vinna í styrkjaumsóknum og svoleiðis, því við erum að reyna að fá gamla frystihúsið undir þessa starfssemi.

,,..en þá settum við fótinn í jörðina og sögðum nei”

Innan þessa ramma langar okkur að reisa ljósmyndastúdió, myrkraherbergi, upptökustúdió og kaffibrennslu fyrir kaffihúsið. Það eru íbúðir í frystihúsinu og við viljum setja upp lítil stúdió þannig að listamenn geti komið, fengið íbúð og stúdió til að vinna í. Þeir geta þá verið þarna í ákveðinn tíma og sett upp sýningu niðri, því það er fullt af sölum og pöllum í þessu frystihúsi. Það átti að rífa það en þá settum við fótinn í jörðina og sögðum nei, við vildum fá það! Þeir voru nú ekki alveg tilbúnir að láta okkur fá það fyrst en svo þurftum við bara að koma með góða rekstraráætlun, sem við og gerðum. Við erum búin að funda með öllu þessu mikilvæga liði og þeim líst bara ágætlega á okkur.

Myndir þú segja að þið væruð í þessari sjálfsþurftarbyltingu sem er að eiga sér stað hérna heima?

Já við erum bara að skapa atvinnu fyrir okkur sjálf, því það er enga atvinnu að fá. Sérstaklega ef þú ert listamaður eða tónlistarmaður þá þarftu bara að gera þetta sjálfur. Nú hefur Stöðvarfirði verið lýst sem deyjandi stað? Hann hefur svona smám saman verið að deyja síðan þeir tóku kvótann í burtu. Síðan Fjarðabyggð var sameinuð þá hætti öll starfsemi og það er ekki svo langt síðan, bara nokkur ár, að allt unga fólkið fór úr bænum og með því kaupfélagið, banki og pósthúsið. Þeir hafa því boðið fólki fjárhagsaðstoð sem er tilbúið að koma með starfsemi, og við gripum það á lofti. Settum saman skjal um að við værum að koma með þetta og að þetta væri stór og mikil starfsemi.


Það er mikill straumur þarna af ferðamönnum, er ekki svo?

Rosalegur straumur, vegna steinasafns Petru og annarra hluta þá stoppa þarna um 60 til 80 þúsund ferðamenn yfir sumarið, það eru alltaf rútur þarna og ekkert gott kaffi, fyrr en í fyrrasumar! Það náttúrulega vantar eitthvað fyrir þessa bæi úti á landi, það er mjög áberandi. Þess vegna er líka annað fólk búið að setja sig í samband við okkur, langar að fá að vera með, t.d. Rauðkrossbúðin og einstaklingur sem vill selja verkaðan fisk. Það er þó basar þarna, þar sem fólkið í bænum getur selt muni, sem það hefur verið að búa til.  Áætlunin gerir ráð fyrir því að skapa allt að fimmtán ný störf, og þá erum við ekki aðeins að skapa störf fyrir okkur sjálf heldur aðra þá sem eru á staðnum.

,,svo er þessi staður náttúrulega einn af megin G blettum landsins”

Það virðist oft vanta skilning hjá opinberum aðilum fyrir því hversu mikið fjármagn streymir inn í landið vegna listsköpunar, finnið þið fyrir því þarna fyrir austan að ykkur er sýndur skilningur á því sem þið eruð að gera?

Merkilegt nokk, því við fengum til okkar fulltrúa Menningarráðs Austurlands og fleiri inn í kaffihúsið þar sem voru sýningar til staðar, og öllum leist rosalega vel á það verkefni. Rósa og Stenek hafa aðallega verið að sækja þess fundi þar sem við komumst ekki svo auðveldlega austur en þau hafa ekki fundið fyrir miklu mótlæti. Sérstaklega þar sem við finnum að bærinn stendur við bakið okkur, í hvert skipti sem við höfum samband er fólk að spyrja hvenær við komum og hvað er að gerast. Þetta er ekki bara fyrir okkur sjálf heldur bæinn sjálfan.

Ég held að fólk sjái þetta sem ákveðna líflínu, því frystihúsið var alltaf þetta sláandi hjarta í bænum og ætlunin er að koma því til að slá á ný. Það hefur verið ákveðin stefna um allan heim fyrir framleiðslubæi að enduruppgötva sig eftir að iðnaðurinn hefur horfið. Þetta er ekkert óþekkt dæmi til dæmis er frystihúsið á Stokkseyri notað undir Draugasafnið, í því er kaffi- og veitingahús og eitthvað svipað er á norðurlandi en það er bara ekkert svona á Stöðvarfirði. Og þegar þú ert skapandi og ert innan um þannig fólk þá er það eins og að fá vítamínsprautu. Elur á sköpun hvors annars, alveg ótrúlega og svo er þessi staður náttúrulega einn af megin G blettum landsins, það er þvílík orka þarna. Þú fæst við listsköpun, hefur það ekki bara næstum því alltaf verið þannig?Að fylla baðkarið af sandi þegar maður er þriggja ára, er það ekki svolítið abstrakt list? Jú listamenn safna sér gráðum og vinna mikið til að skapa sambærilega hluti.

Þið brennið og malið ykkar eigin kaffi, er það ekki búið að vera mikið ferli?

Það er ferli! Ég verð að segja að það er alger list, því allar baunir frá mismunandi héruðumog eða löndum eru alltaf mismunandi, það er alls ekki sama hvernig þú gerir það, sumir halda bara að það sé nóg að henda þessu á ofnplötu og inn í ofn og snúa af og til, en þá endar þú bara með súrt kaffi. Súrt eða beiskt, þetta er víst rosaleg tækni, það heyrist ,,krakk“ eins og Lúkas lýsir því. Á seinna ,,krakki” er kaffið tilbúið, en sumt kaffi tekur tíu mínútur að brenna, annað fjörutíu mínútur og enn annað um hálftíma. Þetta er alveg frekar mikið maus.

Vélarnar sem þið notist við, eru þær ekki heimagerðar og þá búnar að vera til nokkrar frumgerðir?

Þetta er alveg heimagert frá grunni, alger heimafæðing. Þetta er held ég, þriðja eða fjórða gerðin, hann var búinn að fara í gengum þær nokkrar áður en hann fann rétta útgáfu. Núverandi vél er samsett úr gamalli brauðvél og hitabyssu. Byssunni er haldið uppi með hljóðnemastandi því það skiptir máli hversu nálægt hitinn kemur frá. Ég gæti aldrei gert þetta þó svo ég hafi séð þetta milljón sinnum gert. Þetta hefur svo sem kostað sitt, eitt sinn kallaði hann: Áttu hárblásara? og ég jánkaði því og þá var honum bara bætt í vélina og síðan eru allar skálar og pönnukökuspaðar horfnir. Ég ætlaði að fara að gera vöfflur um daginn en það var bara búið að gera gat í allar skálarnar til að leita að rétta rúmmálinu. Handlaginn heimilisfaðir, sem sagt. Nú er hans draumur sá að vilja búa til afar stóra vél og þá er þetta komið í það að nota áltromlu úr þvottavél en það vill hann gera á Stöðvarfirði.

Ögn vænlegra að hugsa til Stöðvarfjarðar en að vinna þetta í  gömlu timburhúsi?

Í timburhúsi frá 1933 sem við erum að taka í gegn, jafnhliða því að búa hérna. Það er ansi hrátt hérna niðri í kjallara þar sem ,,kaffihúsið” okkar er. Það skemmtilega við húsið er að það er byggt á krepputíma og það er byggt úr gömlum flutningakössum. Á einum stað stendur til dæmis: Goðafoss – New York Pier. Og inn í herbergi stendur á einum stað ,,Imported from Japan”. Því var svo lyft í annarri kreppu og svo núna erum við að föndra við að vinna í því aftur í þriðju kreppunni, þannig að grey húsið er bara kreppuhús dauðans. Við bara eiginlega tímum ekki að hylja veggina aftur. Húsið er nú ekki mjög svart og hvítt, gerilsneytt nýmóðins hús? Nei þetta er ekkert diet, ekkert diet kók hér.

Svona að lokum, þá hefur þú verið að hanna ýmislegt fyrir hljómsveitir og fleiri. Hvernig gengur að drýgja tekjur af slíkri listsköpun, er þetta gert af ástríðu?

Þetta er voðaleg oft bara fyrir sjálfa mig, en þetta gengur, ég hef verið að drýgja þetta með því að teikna myndir af börnum, í staðinn gefa mæður mér föt á hana Emblu og mér finnst það voða fínt, oftast er þetta nær ónotað. Ég teikna myndir af börnunum þeirra og fæ í staðinn kuldagalla og stígvél, sem mér finnst frábært! Því föt eru dýr. Oft eru þetta allt mikil vöruskipti og ég fíla það mjög mikið bara að fá einhvað til skiptanna, sama er hjá Lúkasi, hann stillir hljóðfæri og fær til okkar pípara í staðinn, þannig er það kannski bara í kreppu, svolítið mannlegt. Á þetta ekki líka við um það þegar þú ert að spá, sem er annað sem ég veit til að þú tekur að þér? Já ég er spákona, ég spái aðallega í Tarrotspil, í lófa og kaffibolla…

Og í því byrjar tökumaðurinn að spyrja um bolla og spádóma og upp úr því er ekki hægt að ná henni aftur inn í viðtalið, hún er komin á ról með að útskýra hvernig það getur skipt máli ef bollarnir eru kúptir og hálffullir af kaffi. Innanhússleikhúsið er komið aftur í sinn vanagang, aðrir gestir detta inn og Embla sem er nú vöknuð þarf að fara á klósettið, við pökkum saman og látum okkur hverfa kurteislega.

Viðtal: Guðni Rúnar
Myndir: Nanna Dís